Ríkisstjórnin mun á næstu dögum setja fram stefnu sína sem eigandi bankanna, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag.

„Það er ekki ætlunin að ráðskast til um daglegan rekstur bankanna heldur aðeins að marka þeim stefnu sem tryggir að bankarnir taki af myndugleik á vandræðum heimila og fyrirtækja en verði þrátt fyrir það reknir með hagnaði," sagði hún.

Hún sagði að mikilvægar ákvarðanir um framtíðareignarhald nýju bankanna og mögulegt erlent eignarhald þyrfti að liggja fyrir sem allra fyrst. „Markmiðið hlýtur að vera að ríkið verði ekki lengur með eignarhald á bönkunum en nauðsyn krefur".

Þetta kom fram í ræðu ráðherra um efnahagsmál.

Styrkja eftirlit

Jóhanna sagði þar einnig að ný peningastefnunefnd hefði stigið jákvætt skref undanfarna mánuði með lækkun vaxta úr 18 % í 13%. „Vöxtunum hefur verið ætlað að halda í við gengi krónunnar ásamt þeim höftum sem komið var á í lok nóvember og styrkt voru frekar í mars," sagði hún og bætti við:

„Forsenda hraðrar stýrivaxtalækkunar er einnig, að okkur takist að koma í veg fyrir frekari veikingu á gengi krónunnar og nauðsynlegt er í því sambandi að styrkja eftirlit með gjaldeyrishöftum og sjá til þess að þau virki eins og til er ætlast."

Eingöngu slæmir kostir

Jóhanna vék einnig að halla ríkissjóðs sem stefndi í 170 milljarða á þessu ári. Honum þyrfti að ná niður fram til ársins 2013. „Þar stendur valið nánast eingöngu á milli margra slæmra kosta. Það verður viðfangsefni sem mun taka á hjá öllum og felur án efa í sér erfiðustu ákvarðanir sem ég hef þurft að taka á öllum mínum pólitíska ferli."