Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks boðar til kynningarfundar í dag um framhald viðspyrnuaðgerða vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á íslenskt efnahagslíf.

Á fundinum, sem haldinn verður klukkan 15:00 í dag, föstudaginn 20. nóvember, í Hörpu verða þau Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok október boðaði ríkisstjórnin framhald efnahagsaðgerða vegna kórónuveirufaraldursins fram á mitt næsta ár, þar á meðal framlengingu hlutabótaleiðarinnar og framhald lokunarstyrkja.

Einnig var þá gert ráð fyrir útvíkkun tekjufallsstyrkja til fyrirtækja sem yrðu hækkaðir í 17,5 milljónir króna að hámarki, auk nýrra viðspyrnustyrkja sem taki við af þeim til að styðja við lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir.