*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 23. ágúst 2017 11:38

Ríkisstjórnin með 27,2% stuðning

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur dalað um tæp 5 prósentustig frá síðustu mælingu MMR, en er enn stærsti flokkurinn.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýrri könnun MMR sem lauk þann 18. ágúst síðastliðinn, hefur fylgi ríkisstjórnarinnar minnkað töluvert frá því fyrirtækið gerði síðast mælingar fyrir mánuði síðan. Kváðust nú 27,2% styðja hana, en í síðustu könnun var hlutfallið sem studdi ríkisstjórnina 34,1%.

Fór fylgi Sjálfstæðisflokksins niður um tæp 5 prósentustig, eða úr 29,3% niður í 24,5%, en fylgi hinna tveggja stjórnarflokkanna hefur aðeins aukist milli kannana. Fylgi Viðreisnar fór úr 4,7% í 6,0% en fylgi Bjartrar framtíðar er komið í 3,6% eftir að hafa farið niður í 2,4% í síðustu könnun.

Vinstri grænna hefur nánast staðið í stað á milli kannana en það fer úr 20,4% í 20,5%, en fylgi Samfylkingarinnar helst alveg óbreytt, eða í 10,6%. Píratar bæta eilitlu við sig eða 0,2 prósentustigum og standa nú í 13,5% meðan Framsókn bætir ívið meira við sig og fer úr 9,6% í 10,1%.

Flokkur Fólksins heldur hins vegar áfram að hækka sig og er hann nú kominn með 6,7% fylgi, en í síðustu könnun var hann með 6,1%. Fylgi annarra flokka mældist samanlagt 4,6%.