Af þeim sem tóku afstöðu til þess hvort þeir styddu ríkisstjórnina þá svöruðu 78% að þeir styddu hana en 22% að þeir styddu hana ekki samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem tekin var 4. desember síðastliðinn.

„Ég er auðvitað bæði undrandi og glöð með þennan stuðning og þakklát fyrir þann meðbyr sem við fáum í upphafi,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráð-herra og formaður Vinstri grænna í samtali við Fréttablaðið. „Þótt gott sé að fá meðbyr í upphafi þá kallar þetta á enn ríkari kröfur um að standa undir þeim væntingum sem fólk hefur.“

Flokkur Katrínar mælist næst stærstur á ný í könnuninni, en Samfylkingin, sem mældist stærri á meðan á stjórnarmyndunarviðræðunum stóð eins og Viðskiptablaðið greindi frá er aftur komin í þriðja sætið.

Niðurstaða könnunarinnar þegar spurt var um fylgi við einstaka flokka er sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkurinn er með 26,4% en fékk 25,2% í kosningunum, færi úr 16 þingsætum í 19
  • Vinstri græn er með 23,5% en fékk 16,9% í kosningunum, færi úr 11 í 17 þingsæti
  • Samfylkingin er með 13,4% en fékk 12,1% í kosningunum, færi úr 6 í 9 þingsæti
  • Framsóknarflokkurinn er með 11,3% en fékk 10,7% í kosningunum, færi úr 8 í 9 þingsæti
  • Miðflokkurinn er með 7,4% en fékk 10,9% í kosningunum, færi úr 7 í 5 þingsæti
  • Píratar eru með 7,7% en fengu 9,2% í kosningunum, færu úr 6 í 5 þingsæti
  • Viðreisn er með 4,8% en fékk 6,7% í kosningunum, myndu missa sína 4 þingmenn
  • Flokkur fólksins er með 4% en fékk 6,9% í kosningunum, myndi missa sína 4 þingmenn
  • Björt framtíð er með 0,5% en fékk 1,2% í kosningunum, missti sína 4 þingmenn í kosningunum