„Við höfum kynnt okkur álitið og málið verður rætt í ríkisstjórn. Það er augljóst að við höfum skyldu til að fylgjast með málum sem haft geta grundvallarþýðingu fyrir fjármálakerfið í landinu,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um álit EFTA-dómstólsins sem snýr að verðtryggingu íslenskra neytendalána. Mat dómstólsins , sem birt var í morgun, var að tilskipun Evrópusambandsins leggur ekki almennt bann við skilmálum verðtrygginga veðlána í samningum milli veitenda og neytenda og eftirlætur íslenskum dómstólum að leggja mat á það hvort skilmálar verðtryggðra lána séu óréttmætir og sanngjarn sem hafi verði skýrður nægilega vel fyrir neytendum.

Málið var höfðað af Gunnari V. Engilbertssyni, fyrrverandi starfsmanni Glitnis, gegn Íslandsbanka, vegna 4,4 milljóna króna verðtryggðs húsnæðisláns sem var tekið árið 2007. Einar Páll Tamimi, lögmaður Gunnar, lagði fram beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Hérðsdómur féllst á það en Íslandsbanki kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem í október í fyrra dæmdi á þann veg að leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á fimm spurningum.

Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag er málið risavaxið enda nema verðtryggð lán heimilanna í landinu um 1.200 til 1.300 milljörðum króna.

Bjarni segir EFTA-dómstólinn ekki leggja það mat á beitingu verðtryggingarinnar að hún sé fyrirfram álitin ósanngjörn og ólögmætur skilmáli.

Eruð þið sátt við niðurstöðuna?

„Mér finnst mikilvægt að ríkið er ekki beinn aðili að málinu heldur er það rekið á milli einstaklings og viðskiptabanka. Skilmálar í slíkum samningum geta verið á alla vegu. Það er eðlilegt að menn láti reyna á rétt sinn á grundvelli gildandi laga í landinu eins og verið er að gera í þessu máli. Mér finnst ekkert við það að athuga,“ segir Bjarni og leggur áherslu á það í samtali við VB.is að ríkisstjórnin muni fylgjast með þessu máli áfram sem og öðrum málum sem eru fyrir EFTA-dómstólnum.