Hollenski olíurisinn Royal Dutch Shell tilkynnti í gær um að fyrirtækið ætli að flytja höfuðstöðvar og skattalegt heimili sitt til Bretlands. Hollenska ríkisstjórnin gerir nú lokatilraun til að halda Shell í landinu og íhugar að afnema umdeildan arðgreiðsluskatt. Financial Times greinir frá.

Shell og Unilever, sem flutti höfuðstöðvar sínar frá Rotterdam til London í fyrra, hafa lengi kvartað yfir 15% staðgreiðsluskattinum (e. withholding tax). Ben van Beurden, forstjóri Shell, nefndi skattinn sem eina af ástæðunum fyrir fyrirhuguðum flutningum olíufyrirtækisins. Bretland er eitt af fáum Evrópuríkjum sem er ekki með slíkan skatt.

Hollenska ríkisstjórnin, sem Mark Rutte forsætisráðherra hefur leitt í meira en áratug, lofaði því árið 2017 að afnema 15% staðgreiðsluskattinn og hvatti bæði Unilever og Shell að flytja starfsemi sína alfarið til Hollands. Hins vegar var fallið frá áformunum eftir mótlæti frá vinstri og grænum stjórnmálaflokkum.

Efnahagsráðherra Hollands, Stef Blok, og skattaráðherrann Hans Vijlbrief munu ávarpa þingmenn um áformin að afnema staðgreiðsluskattinn í dag.

Meðal tillaga sem Shell mun bera undir hluthafa í desember er að hætta með „Royal Dutch“ hlutann í nafninu sínu ásamt því að fallið verði frá tveggja hluta flokka hlutabréfafyrirkomulagi. Í staðinn verði einungis einn flokkur hlutabréfa en fyrirtækið telur að það muni auðvelda endurkaup á eigin hlutum ásamt því að einfalda yfirtökur og sölu á dótturfélögum.