*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 22. mars 2019 15:03

Ríkisstjórnin samþykkir þriðja orkupakkann

Utanríkisráðherra setur fyrirvara á ákvæði um ACER og orkuviðskipti milli landa, sem taki ekki gildi án raforkusæstrengs.

Ritstjórn
Guðlaugur Þór Þórðarson er utanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur samþykkti á fundi sínum í morgun að leggja þriðja orkupakka Evrópusambandsins fyrir Alþingi. Eins og fjallað hefur verið um hefur ríkisstjórnin frest til 30. mars til þess.

Ríkisstjórnin, sem nýtur meirihlutastuðnings Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, samþykkti jafnframt tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um málið.

Felur hún í sér að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku svonefnds þriðja orkupakka inn í EES-samninginn. Ákvörðunin um upptökunina tekur ekki gildi fyrr en öll EFTA ríkin hafi aflétt fyrirvararanum, en bæði Noregur og Liechtenstein hafa þegar gert það.

Reglur ekki í gildi fyrr en Alþingi samþykki sæstreng

Tillagan Guðlaugs Þórs inniheldur fyrirvara um að áður en reist verði grunnvirki, líkt og sæstrengur, sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar Evrópusambandsins verði lagagrundvöllur gerðanna endurskoðaður og komi ákvæði hennar um tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni.

Segir í frétt um málið á vef stjórnarráðsins að þær reglur sem eigi við um flutning raforku yfir landamæri verði því innleiddar með þeim lagalega fyrirvara að þær komi ekki til framkvæmda nema að Alþingi heimili lagningu raforkustrengs. Þá muni jafnframt þurfa að taka afstöðu til þeirra á þeim grundvelli hvort þær séu í samræmi við stjórnarskrá.

„Ég hef tekið gagnrýni sem fram hefur komið vegna þriðja orkupakkans mjög alvarlega og því leitað ráðgjafar hjá virtustu sérfræðingum okkar á þessu sviði,“ segir Guðlaugur Þór en tveir af fjórum sérfræðingum sem utanríkisráðuneytið leitaði til sögðu orkupakkann í óbreyttri mynd fela í sér of mikið framsal valds til Evrópusambandsins og orkustofnunnar þess, ACER.

„Ég tel hafið yfir allan vafa að með þeirri lausn sem ég legg til á grundvelli þessarar ráðgjafar felst enginn stjórnskipunarvandi í upptöku og innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt. Með því að útiloka stjórnskipulega óvissu hefur stærstu hindruninni verið rutt úr vegi fyrir innleiðingu og upptöku þriðja orkupakkans. Í þessu sambandi skiptir líka afar miklu máli sá sameiginlegi skilningur sem fram kom í viðræðum okkar orkumálastjóra Evrópusambandsins um þá sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart sameiginlegum orkumarkaði. Nú hafa skapast forsendur til að taka umræðuna á þingi um hvað raunverulega felst í orkupakkanum.“

Ákvæði um ACER og raforkuviðskipti sögð engin merkjanleg áhrif hafa á fullveldi Íslands

Guðlaugur ræddi við Miguel Arias Canete framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þann 20. mars síðastliðinn þriðja orkupakka ESB, um þriðja orkupakkann, með hliðsjón af einstökum aðstæðum endurnýjanlegrar orku og orkumarkaðar á Íslandi.

Í frétt á stjórnarráðinu um fundinn segir að aðstæður á Íslandi séu verulega frábrugðnar þeim sem eru til staðar í löndum þar sem orkunet tengjast yfir landamæri. „Þess vegna hentar hið sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland, sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti, þar sem komist er hjá allri ónauðsynlegri byrði, best fyrir íslenskar aðstæður,“ segir í fréttinni.

„Raforkukerfi Íslands er eins og stendur einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefur stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.  Þar af leiðandi munu ákvæði um ACER (Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) og reglugerðin um raforkuviðskipti yfir landamæri[*] ekki hafa nein merkjanleg áhrif á fullveldi Íslands í orkumálum.

Verði grunnvirki yfir landamæri sett upp í framtíðinni hefur eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri, en ekki ACER. Þetta hefur verið samþykkt í viðkomandi aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 sem endurspeglar sjálfstæði stofnana EFTA undir „tveggja stoða kerfi“ samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.  

Gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafa engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og ákvörðunarvald yfir nýtingu og stjórnun þeirra. Ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggur alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.  Ákvæði þriðja orkupakkans eins og þau gilda gagnvart Íslandi breyta ekki núverandi lagalegri stöðu að þessu leyti.“

Hér má lesa fleiri fréttir um þriðja orkumálapakka ESB:

Hér má lesa skoðanapistla um þriðja orkumálapakka ESB:

15. apríl 2018 - Mikilsverðir orkuhagsmunir eru í húfi