Ríkisstjórnin ræddi í vikunni tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. „Það kom inn í lögin árið 2015 að þetta skyldi gert,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.

Tillöguna átti að leggja fram á haustþingum 2016 og 2017, en frestaðist í bæði skiptin vegna kosninga. „Þetta var afgreitt í ríkisstjórn og fór til stjórnarflokkanna í gær. Þarna er verið að tryggja aðkomu lýðræðislegra kjörinna fulltrúa að stefnu stjórnvalda í þessum málum. Þetta er áskorun en er mjög mikilvægt,“ segir Þórdís Kolbrún.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er meðal annars horft til þess hvort raunhæft sé að leggja flutningskerfið í auknum mæli í jörðu. „Við erum nú með kerfi sem þarfnast lagfæringar. Það eru áform um að styrkja sérstaklega svæðið á Norðurlandi eystra, það þarf að styrkja betur svæðið á Vestfjörðum og tengja betur lykilsvæði,“ segir Þórdís Kolbrún.