Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi í dag að auka stuðning ríkisins við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) vegna undribúnings og þátttöku íslenskra íþróttamanna á Ólympíuleikunum í London.

Framlög verða aukin um 15 milljónir króna. Í fjárlögum ársins 2012 er stuðningur ríkissjóðs við ÍSÍ og sérsambönd innan þess 156 milljónir króna og því um 10% hækkun á heildarframlögum að ræða.

Gert er ráð fyrir að 29 íþróttamenn taki þátt í leikunum fyrir Íslands hönd í sex íþróttagreinum. Að auki verða fararstjórar, flokksstjórar, þjálfarar, læknar, sjúkraþjálfarar o.fl. að sjálfsögðu með í för. Heildarkostnaður ÍSÍ er áætlaður um 100 milljónir króna og verður að mestu greiddur úr Afrekssjóði ÍSÍ auk þess sem sérsambönd veita fjármagn til fararinnar. Með fjárlögum 2012 var samþykkt 40% hækkun framlaga yfirvalda til Afrekssjóðsins og eru þau nú 34,7 milljónir króna.