Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að veita þremur milljónum króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til að taka upp íslensku óperuna „Ragnheiði “ eftir þá Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson. Jafnframt fær Íslenska óperan tvær milljónir króna í styrk til að standa straum af kostnaði við uppsetningu verksins í Hörpu. Óperan hefur fengið rífandi dóma gagnrýnenda.

Óperan fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur í Skálholti á 17. öld, ástarsamband hennar og fordæmingu föður hennar, Brynjólfs biskups Sveinssonar. Verkið var frumflutt í Skálholti í fyrrasumar og er nú flutt í Hörpu. Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytingu að miðað við fyrirliggjandi áætlanir er gert ráð fyrir því að kostnaðurinn við hljóðritun óperunnar muni nema 14,6 milljónum króna.

Stefnt er að því að vinna vandaða útgáfu verksins og gefa út á þremur geisladiskum ásamt söngbók. Að upptökunni munu koma fjöldi listamanna og söngvara auk tónlistarmanna.