Ríkisstjórnin hefur hætt við að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna ákvörðunar Breta um að beita hryðjuverkalögunum til að frysta eignir Landsbankans í haust.

Þetta kemur fram á vef Financial Times í dag en Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra staðfestir í samtali við blaðið að ríkisstjórnin hafi engin áform um að fara með málið fyrir dómsstóla.

Fram kemur í frétt FT að fyrri ríkisstjórn hafi heitið því í janúar að höfða mál fyrir dómsstólnum gegn Bretum vegna beitingar Bretanna á hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum og íslenskum ríkisstofnunum en hafi þó hætt við að sækja málið fyrir breskum dómsstólum.

Fram kemur í frétt FT að með því að hætta við að sækja málið sé ríkisstjórn einnig að senda út þau skilaboð að praktísk stjórnmál séu nú í forgangi sem feli það í sér að byggja upp traust á fjármálakerfinu hér á landi.

„Þetta er eitt af því sem við þurfum að leggja til hliðar í þeim tilgangi að endurbyggja fjármálakerfið og eins fjármála hins opinbera,“ hefur FT eftir Gylfa.

Þá kemur að lokum fram að embættismenn í Bretlandi fagni þeirri ákvörðun Íslendinga að fara ekki með málið fyrir dómsstóla, það muni einungis bæta samskiptin milli landanna.