Ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja í sumar 850 milljónum króna til uppbyggingar- og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón ríkisins. Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins .

Ráðist verður í 104 verkefni á 51 stað á landinu, auk þess sem viðbótarfé verður varið til aukinnar landvörslu um allt land. Mest verður framkvæmt í Skaftafelli og á Þingvöllum, við Geysi, í Dimmuborgum, á miðhálendinu, við Gullfoss, Dyrhólaey, Dynjanda, Stöng í Þjórsárdal og Dettifoss. Verkefnin eru af ýmsum toga en megináhersla er lögð á framkvæmdir vegna göngustíga, útsýnispalla, bílastæða og salernisaðstöðu.

Þá segir í fréttinni að á næstu árum verði ráðist í enn frekari umbætur á vinsælum ferðamannastöðum í eigu og umsjón ríkisins með það að markmiði að bæta þar skipulag og aðgengi þannig að staðirnir þoli vel þann fjölda sem þangað sæki. Undirbúningur að því verkefni sé þegar hafinn.

Fjármögnun verkefnanna er háð samþykki Alþingis og verður óskað eftir fjárheimildum í tillögum til fjáraukalaga 2015. Yfirlit yfir fyrirhugaðar framkvæmdir má sjá hér .