Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að fela starfshópi fjögurra ráðuneyta að hefja undirbúning að stofnun auðlindasjóðs. Hópurinn á jafnframt að gera tillögu að nýrri skilgreiningu á núgildandi stjórnskipulagi auðlindamála og þjóðlendna. Með stofnun sjóðsins á m.a. að tryggja að arður af auðlindunum verði sýnilegur og að komandi kynslóðir geti nýtt hann. Norski olíusjóðurinn er m.a. fyrirmyndin að íslenska auðlindasjóðnum.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að féð sem renni í sjóðinn verði arður af hugsanlegri nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda innan íslenskrar lögsögu og fjármunum sem skila sér vegna nýtingar vatnsréttinda í þjóðlendum. Forsætisráðuneytið hefur þegar tekið við 923 milljónum króna á grundvelli laga um þjóðlendur sem greiðslu vegna nýtingar vatnsréttinda í þjóðlendum og er gert ráð fyrir að stærstur hluti fjárins renni í auðlindasjóðinn.

Starfshópurinn sem á að hefja undirbúning að stofnun sjóðsins verður skipaður fulltrúum forsætisráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

M.a. er fjallað um auðlindasjóðinn í skýrslu Auðlindastefnunefndar .