Boðað hefur verið til mótmælafunda klukkan 17 á morgun, bæði í Reykjavík og í Kaupmannahöfn, þar sem stefnu ríkisstjórnar Íslands verður mótmælt.

Á Austurvelli hefur verið boðað til mótmæla, þriðja mánudaginn í röð. Tvö þúsund manns hafa boðað komu sína Facebook síðu mótmælanna, sem ber heitið „Jæja, Hanna Birna! Mótmælafundur á Austurvelli.“ Þar segir meðal annars: „Mætum og krefjumst þess að stjórnmálamenn sýni samhygð og axli ábyrgð. Krefjumst þess að yfirvöld berjist fyrir réttindum allra en ekki bara fjársterkra hagsmunahópa. Við búum í samfélagi ekki einkahlutafélagi!“

Athygli vekur að Íslendingar staðsettir í Kaupmannahöfn hafa einnig boðað til mótmæla á morgun og munu þau fara fram við íslenska sendiráðið Kaupmannahöfn.

Á Facebook síðu mótmælanna hafa 61 boðað komu sína, en þar segir jafnframt: „Ástandið á Íslandi er vægast sagt slæmt. Heilbrigðis og menntakerfin eru algjörlega fjársvellt, matarskattur hækkar á meðan 'lúxusskattur' á flatskjáum lækkar, það er valtað yfir náttúruna og ríkisstjórn Íslands hefur komið einstaklega illa fram.“