*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 12. mars 2015 13:25

Ríkisstyrkt fiskeldi

Fjárfestingakostnaður Matorku vegna fiskeldis við Grindavík nemur 1.200 milljónum en fyrirtækið gæti fengið ríkisstyrk upp á ríflega 700.

Trausti Hafliðason
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Ríkisstjórnin undirritaði í lok febrúar fjárfestingasamning við Matorku ehf. vegna áætlana fyrirtækisins um að reisa 3 þúsund tonna fiskeldisstöð uppi á landi við Grindavík.

Matorka mun meðal annars greiða 15% tekjuskatt í stað 20%. Fyrirtækið fær 50% afslátt af tryggingargjaldi og hlutfall fasteignaskatts verður 50% lægra en lögbundið hámark. Samkvæmt samningnum er sú ríkisaðstoð sem Matorka fær í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum metin á 426 milljónir króna. Það er 35% af fjárfestingakostnaði verkefnisins sem þýðir að heildarfjárfestingarkostnaður Matorku nemur 1.217 milljónum króna.

Þá er ekki allt talið því í samningnum kemur fram að Matorka eigi rétt á þjálfunaraðstoð upp á 2 milljónir evra eða 295 milljóna króna. Tekið er fram að hér á landi sé takmörkuð verkþekking á fiskeldi. Aðstoðin sé ætluð til þjálfunar starfsmanna.  "Ríkisstjórnin mun eftir fremsta megni leitast við að fá heimild í fjárlögum 2016 fyrir þjálfunaraðstoðinni þegar ráðuneytinu hefur borist áætlun um þjálfun starfsmanna."

Þetta þýðir að Matorka gæti fengið 295 milljónir króna í viðbót við þær 426 milljónir sem fyrirtækið fær í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum. Ef það gengur eftir fær Matorka 721 milljónir króna í styrk vegna fiskeldisstöðvarinnar. Það er 59% af heildarfjárfestingarkostnaðinum.

Stjórn Landssambands fiskeldisstöðva mætti á fund atvinnuveganefndar Alþingis í vikunni vegna málsins. Í greinargerð sem sambandið hefur afhent nefndinni kemur fram að stjórnin mótmæli „harðlega sértækum styrkjum til einstakra aðila sem raska samkeppni í greininni".

Um þessa gagnrýni segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra: „Við gerum ekki upp á milli atvinnugreina eða hvort það séu starfandi fyrirtæki í þeim greinum sem nýfjárfestingin tekur til."

Nánar er fjallað um málið  í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.