Tekjur ríkissjóðs á síðasta ári námu á þriðju milljón króna á hvern Íslending og hafa þær aðeins tvisvar verið hærri frá árinu 1998. Það var annars vegar við sölu Símans, sem skilaði ríkissjóði tugum milljarða króna, og árið 2007 þegar einkaneysla sló met. Þetta kemur fram í greiningu Analytica á þróun ríkistekna sem unnin var að beiðni Morgunblaðsins .

Lægstar voru tekjur ríkissjóðs árið 1998 þegar þær námu 1,29 milljónum króna á hvern Íslending, en á síðasta ári voru tekjurnar um 750 þúsund krónum hærri. Til samanburðar nam fjármagnskostnaður ríkissjóðs 77 milljörðum króna í fyrra sem nemur 236 þúsund krónum á hvern Íslending.