Ríkisútvarpið hefur ákveðið að taka viðtal við alla frambjóðendur til stjórnlagaþings. Tíu til tólf frambjóðendur munu koma fram í hverjum þætti sem verða alls 44 talsins. Hver þáttur verður um klukkustund að lengd og verður útvarpað á Rás 1.

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta eigi allt að ganga upp. Reiknað sé með að um 15-20 manns komi að verkefninu en þau Leifur Hauksson, Linda Blöndal og Ævar Kjartansson munu sjá um þáttastjórn. Þættirnir verða teknir upp á laugardag, sunnudag og mánudag. Fyrsti þáttur fer síðan í loftið á mánudag og þeim síðasta verður útvarpað á föstudaginn eftir viku.

Páll segist nokkuð viss um að einhverskonar heimsmet sé um að ræða. „Við tökum viðtal við 523 framjóðendur á þremur dögum og útvörpum þeim síðan frá mánudegi til föstudags,“ segir Páll.

„Það hefur verið mikil umræða varðandi umfjöllun okkar um stjórnlagaþingið. Umfjöllun okkar um fyrirbærið sjálft hefur verið þétt, bæði í útvarpi og í sjónvarpi.  Kynning á frambjóðendunum sjálfum hefur ekki verið önnur en sú að í sjónvarpi hefur verið kynning utan venjulegs sýningartíma. Þar eru sýndar tvær síður um hvern frambjóðanda, helstu upplýsingar og stefnumál. Það var skorað á okkur að gera enn betur, ekki síst af frambjóðendunum sjálfum,“ segir Páll. Hann segir að með gerð þáttanna sé verið að breðgast við þeirri gagnrýni sem Rúv hefur hlotið.