Skrifað hefur verið undir kaupsamning milli Ríkisútvarpsins og einkahlutafélags með ábyrgð Skuggabyggðar ehf. um byggingarrétt á lóð við Efstaleiti 1. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Skuggabyggð ehf. er verktakafyrirtæki í eigu Kristjáns Gunnars Ríkharðssonar.

Þar segir að ávinningur sölunnar í heild sé áætlaður a.m.k. 1,5 milljarðar króna en hann nmuni ráðast af endanlega staðfestu deiliskipulagi svæðisins. Nú sé unnið að deiliskipulagi lóðar við Efstaleiti á grundvelli vinningstillögu Arkþings um skipulag svæðisins.

„Til stendur að byggja upp blandaða byggð á svæðinu. Kaupendur skiluðu inn tilboði sem stjórn RÚV mat það hagstæðasta í söluferlinu. Í kjölfar þess voru hafnar viðræður sem lýkur nú með samþykkt stjórnar RÚV á samningnum og undirritun hans. Kaupsamningurinn um byggingarréttinn er gerður með fyrirvara um frágang fjármögnunar kaupanna, nánari útfærslu á tilteknum þáttum í skipulagi svæðisins og að ráðstöfunarheimild Ríkisútvarpsins yfir lóðarréttindunum verði staðfest með ákvæði í fjáraukalögum fyrir árið 2015,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að ávinningur RÚV verði nýttur til að greiða niður skuldir félagsins. Þrátt fyrir viðsnúning í rekstri félagsins og áforma um niðurgreiðslu skulda í framhaldi af lóðasölu sé félagið þó enn yfirskuldsett og beri þar hæst skuldabréf í eigu LSR sem sé tilkomið vegna uppgjörs gamalla lífeyrisskuldbindinga Ríkisútvarpsins. Náði RÚV samkomulagi við LSR um frestun á greiðslum þriggja gjalddaga skuldabréfsins eða til 1. apríl 2016.