Kapítalismanum hefur verið spillt og ríkisvaldið tekið á sig ábyrgð á öllu frá launum millistéttarfólks til hagkvæmni stórra fyrirtækja og framþróunar í iðnaði. Er þetta meðal þess sem segir í grein hagfræðinganna Edmund S. Phelps og Saifedean Ammous í tímariti Landsbankans, „Hvert stefnir“.

Segja þeir að þetta nýja kerfi sé hins vegar ekki kapítalismi, heldur fremur hagstjórnarskipulag sem eigi rætur að rekja til Bismarcks seint á nítjándu öld og Mussolínís snemma á þeirri tuttugustu: samráðshyggja.

„Kostnaðurinn sem hlýst af samráðshyggju blasir við okkur alls staðar: óstarfhæf fyrirtæki sem lifa af þrátt fyrir augljósan vanmátt til að þjóna viðskiptavinum sínum, kölkuð hagkerfi með lítinn vöxt, skortur á spennandi störfum, fá tækifæri fyrir ungt fólk, magnþrota stjórnvöld sem ekki geta tekið á þessum vandamálum og síaukin samþjöppun auðs þeirra sem eru nógu vel tengdir til að vera réttu megin við borðið í samráðshyggjunni.„

Netið er enn frjáls markaður

Segja þeir þó að fyrir yngri kynslóðir, sem hafa alist upp við notkun internetsins, muni ekki sjá mikið vit í þessu samráðskerfi. Ris og hrun fyrirtækja á netinu sé besta auglýsingin fyrir hinn frjálsa markað. Samfélagsmiðlar lifa og deyja allt eftir því hversu vel þeir þjóna þörfum viðskiptavina sinna. Engin inngrip ríkisins hafi þurft til að fá fólk til að flytja sig frá MySpace yfir á Facebook, eftir að fyrrnefnda fyrirtækið fór að umgangast persónulegar upplýsingar um notendur af minni virðingu en þeir töldu rétt.

Segja þeir Phelps og Ammous að líkleg viðbrögð nútímasamráðshyggjufólks hefðu hins vegar verið þau að dæla skattpeningum inn í MySpace og senda frá sér yfirlýsingar um að bæta þyrfti persónuvernd hjá fyrirtækinu.