Rikki Chan ehf., sem rekur kínverskan veitingastað undir sama nafni í Kringlunni og á Smáratorgi, hagnaðist um 18,3 milljónir króna á síðasta ári borið saman við 15,8 milljónir árið áður.

Seldar voru veitingar fyrir 230,2 milljónir en árið áður nam salan 205,8 milljónum. Rekstrarkostnaður var 211,9 milljónir borið saman við rúmlega 190 milljónir árið áður, en laun og launatengd gjöld jukust um rúmlega 17% milli ára. Fyrirtækið greiddi 23,3 milljónir í leigu, eða rúmlega 1,9 milljónir króna á mánuði. Efniskostnaður var 94,3 milljónir en var tæplega 10 milljónum krónum lægri árið áður.

Eignir námu rúmlega 85 milljónum í árslok og var eigið fé félagsins 78,3 milljónir. Eiginfjárhlutfall Rikka Chan var 92% í lok árs. Langtímaskuldir eru engar.

Handbært fé frá rekstri nam 15,8 milljónum en handbært fé í árslok nam 30,8 milljónum. Greiddur var út arður fyrir 12,5 milljónir vegna rekstrarársins 2015.