Stjórnendur kanadíska farsrímaframleiðandans Research In Motion (RIM) gera allt hvað þeir geta til að draga saman seglin nú þegar í harðbakka slær og eru með niðurskurðarhnífinn á lofti í því skyni að lækka rekstrarkostnað um einn milljarð dala, jafnvirði tæpa 130 milljarða íslenskra króna. Á meðal þeirra ráða sem þeir hafa gripið til er segja upp starfsfólki og að setja eina af tveimur einkaþotum fyrirtækisins á söluskrá.

Fram kemur í netútgáfu kanadíska fjölmiðilsins Financial Post , að þotan sé níu sæta Dassault Aviation SA F50EX. Á hana eru settar á bilinu sex til sjö milljónir dala, jafnvirði allt að 900 milljónir íslenskra króna. Þotan sem fyrirtækið ætlar að halda í er svipaðrar gerðar, Dassault F900 EX, en tekur fjórtán farþega í sæti.

Þá segir að forstjórinn Thorstein Heins muni þurfa að gera grein fyrir erfiðri stöðu fyrirtækisins á aðalfundi fyrirtækisins í dag. Síðustu tólf mánuðir hafa verið þyrnum stráðir fyrir stjórnendur fyrirtækisins. Sala á BlackBerry-farsímum fyrirtækisins tók dýfu þegar ódýrir snjallsímar tóku að ryðja sér til rúms og hefur það haft frekar neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa RIM. Símasalan í Bandaríkjunum einum saman hrundi um 47% í fyrra og hefur gengi hlutabréfa fallið um 95% á síðastliðnum fjórum árum.

Gengi hlutabréfa RIM stóð í 27,8 dölum á hlut fyrir ári. Síðan þá hafa 20 dalir gufað upp af hverjum hlut.