Því er spáð að mikil ringulreið gæti skapast við komandi þingkosningar í Bandaríkjunum, segir í frétt Financial Times.

Tækninýjungar í framkvæmd kosninganna, nýjar kosningareglur og hörð barátta í kosningunum munu auka líkur á að til vandræða komi. Þetta kemur fram á vefmiðlinum electionline.org, sem hefur gert úttekt á breytingum í framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum og hver áhrif þeirra verða 7. nóvember næstkomandi.

Í könnuninni segir að í versta falli megi vænta algerrar ringulreiðar í kring um kosningarnar og í besta falli verði smávægileg vandræði á flestum kosningastöðum. Forstjóri miðilsins, Doug Chapin, segir ómögulegt að spá nákvæmlega fyrir um hvar vandamál muni koma upp, en miðað við magn breytinga sem gerðar hafa verið nefndi hann nokkur ríki sem líklegri en önnur:

Í Arizona hafa verið tekin upp ný lög um skráningu og sönnun á ríkisborgararétti, sem munu vera til þess fallin að valda misskilningi kjósenda og kosningastarfsmanna.

Í Colorado hefur kosningastöðum verið fækkað sem gæti valdið því að kjósendur muni ekki finna kjörstaði sína. Þar að auki hefur verið tekið upp nýtt tölvukerfi með snertiskjám sem kann að valda misskilningi.

Hann bendir einnig á að vandræði kunni að koma upp í Ohio og Flórída, sem voru umdeild í forsetakosningunum árin 2000 og 2004.