Rio Tinto Alcan og Landsvirkjun hafa samið um orkukaup til ársins 2036. Fyrri samningur hefði gilt til 2024. Í nýja samningnum er einnig kveðið á um kaup á 75MW af viðbótarorku, sem er ein forsenda þess að unnt sé að ráðast í fyrirhugaða straumhækkun í álverinu í Straumsvík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rio Tinto Alcan og Landsvirkjun.

Rannveig Rist forstjóri Alcan á Íslandi segir samninginn mikilvægan áfanga fyrir álverið. Samningurinn er háður samþykki stjórna beggja fyrirtækja auk fyrirvara sem meðal annars lúta að því að ákveðinni óvissu verði eytt um skatta á stóriðju. Í tilkynningunni segir einnig að gert sé ráð fyrir að fyrirvörunum verði fullnægt eigi síðar en 31. ágúst næstkomandi.