Námu- og málmfyrirtækið Rio Tinto sem á m.a. álverið í Straumsvik hefur samþykkt að lækka verð á járngrýti til Nippon Steel í Japan um að meðaltali 37%. Hefur samningurinn haft þau áhrif að dregið hefur úr gengisfalli ástralska dollarans. Talið er að þessi samningur verði stefnumarkandi varðandi verðlækkanir annarra námufyrirtækja á málmgrýti að mati Times Online.

Þetta er fyrsti samningurinn um lækkun á járngrýti af þessum toga í sjö ár. Margir sérfræðingar bjuggust þó við meiri lækkun því að í Kína hefur staðgreiðsluverð á járngrýti lækkað um 42-57%. Samningur Rio Tinto og Nippon Steel gerir ráð fyrir að nýja verðið gildi frá 1.apríl 2009.

Viðræður námurekenda og stálframleiðenda hafa staðið yfir vikum saman en voru komnar í öngstræti. Talið er að verðlækkun Rio Tinto muni koma þeim viðræðum í gang að nýju og verða stefnumarkandi fyrir önnur fyrirtæki. Það varðar m.a. viðræður BHP Billington við japanska og kóreanska stálframleiðendur. Þá hefur Vale í Brasilíu beðið eftir að Rio Tinto lyki sínum samningum við Nippon Steel.

Rio Tinto stendur nú í þeim sporum að þurfa að auka eigið fé sitt um 19,5 milljarða dollara. Gert er ráð fyrir að það verði gert með því að selja kínverska ríkisfyrirtækinu Chinalco aukin hlut í félaginu. Í fyrstu verði um að ræða sölu upp á 13,3 milljarða dollara og síðan 7,2 milljarða til viðbótar í framhaldinu. Skipar skoðanir eru þó um þetta meðal hluthafa Rio Tinto, en með þessu myndi hlutur Chinalco í Rio Tinto aukast úr 9% í 18% á næstu sex árum.