*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Erlent 9. júlí 2020 11:25

Rio Tinto lokar í Nýja-Sjálandi

Álver Rio Tinto í Nýja-Sjálandi hefur verið lokað en ekki tókst að semja um lægra orkuverð fyrir álverið.

Ritstjórn
Rio Tinto álverið í straumsvík.
Haraldur Guðjónsson

Álframleiðandinn Rio Tinto Alcan mun loka álveri sínu við Tiwai Point á Nýja-Sjálandi í ágúst á næsta ári. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að ekki hafi tekist að semja um lægra orkuverð fyrir álverið og þess vegna verði því lokað. Frá þessu greinir Fréttablaðið.

Mikil umfjöllun hefur verið um að Rio Tinto sækist eftir því að loka eða selja álverum í sinni eigu sem ekki teljast til kjarnastarfsemi félagsins. Þar hafa álver í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og á Íslandi verið nefnd en flest álver félagsins eru í Kanada. 

Álverið hóf framleiðslu sína árið 1971 en engin önnur álver eru starfrækt á Nýja-Sjálandi. Álverið við Tiwai Point er knúið af endurnýjanlegri orku sem framleidd er með vatnsafli á Manapouri-vatnasvæðinu. Uppsett afl virkjunarinnar er 850 megavött, en til samanburðar er uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar 690 megavött.

Afkastageta Tiwai Point er um 330 þúsund tonn á ári, samanborið við 190 þúsund tonn í Straumsvík. Álverið fær súrál frá báxíthreinsistöðvum Rio Tinto í Ástralíu og flytur mest af framleiðslunni til Japan.

Stikkorð: Álver Rio Tinto Nýja-Sjáland