Alþjóðlega námufyrirtækið Rio Tinto Group, móðurfélag Alcan í Straumsvík áætlar nú að segja upp allt að 14 þúsund manns víðsvegar um heiminn.

Að sögn Bloomberg fréttastofunnar starfa um 97 þúsund manns hjá félaginu víðsvegar um heiminn.

Af þeim 14 þúsund sem sagt verður upp eru um 8.500 verktakar og aðrir lausráðnir.

Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto segir að miðað við markaðsaðstæður nú sé nauðsynlegt að grípa til umfangsmikilla sparnaðarðgerða.

Hann segir í samtali við Reuters að félagið verði rekið með lágmarkskostnaði þangað til birtir til á mörkuðum og hægt sé að horfa fram á aukin umsvif.

Helsti samkeppnisaðili Rio Tinto, BHP Billiton dró nýlega til baka yfirtökutilboð sitt vegna mikilla skulda Rio Tinto en að sögn Reuters fréttastofunnar skuldar félagið tæpa 40 milljarða Bandaríkjadali.

Þá segir í tilkynningu frá félagin að hætt verði við ákveðin verkefni á vegum félagsins. Þannig hyggst félagið spara um helming þess sem ætlað var í nýjar fjárfestingar, stækkanir og önnur verkefni.

Á næsta ári er áætlað að eyða 4 milljörðum Bandaríkjadala í slík verkefni í stað þeirra 9 milljarða dala sem áður var gert ráð fyrir.

Ekkert liggur fyrir um hvaða verkefni félagið hyggst hætta við og hvar sparað verður í fjárfestingum. Bæði Bloomberg og Reuters segja þó að það verði kynnt fljótlega.