Ástralsk-ameríski námurisinn Rio Tinto, sem m.a. á álverið í Straumsvík, hefur ákveðið að skera niður álúrvinnslu sína og selja 13 álver í Ástralíu, Evrópu og Ameríku. Frá þessu greinir BBC og vitnar í tilkynningu frá Rio Tinto en samkvæmt þeirri tilkynnignu verður álverið í Straumsvík ekki selt heldur eru það verksmiðjur í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi sem seldar verða.

Um er ræða verksmiðjur sem Rio Tinto eignaðist við kaup sín á kanadíska álframleiðandanum Alcan árið 2007 en ekkert er gefið upp um hversu mikið Rio Tinto vonast til að fá fyrir verksmiðjurnar.

Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto, segir að allt séu þetta vel reknar og arðbærar verksmiðjur en þær passi ekki lengur við viðskiptamódel fyrirtækisins og því verði þær seldar.