*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 11. júlí 2021 15:04

Rio Tinto tapaði 12 milljörðum í fyrra

Álver Rio Tinto í Straumsvík var rekið með 87 milljón dala tapi í fyrra. Árið í ár er þó sagt líta mun betur út.

Álver Rio Tinto í Straumsvík.

Rio Tinto í Straumsvík var rekið með um 11,8 milljarða króna tapi á síðasta ári, eða um 87 milljónum Bandaríkjadala, en tap félagsins dróst saman um 16,9% á milli ára í dölum talið.

Velta félagsins nam 50,5 milljörðum króna og lækkaði um 18% milli ára í dölum talið. Rekstrargjöld námu um 61 milljarði króna og lækkuðu þau um 17% milli ára og hrein fjármagnsgjöld námu 865 milljónum króna og ellefufölduðust milli ára.

Sjá einnig: Öll rekin með tapi

Greidd laun námu um 4,4 milljörðum króna og drógust saman um tæpt prósent milli ára í krónum talið, en þau drógust saman um tæp 9% í dölum talið. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 384 yfir árið en þeim fækkaði um 6% milli ára.

Eignir félagsins námu um 65 milljörðum króna í lok árs og voru 6,7% lægri en ári fyrr í dölum talið. Skuldir námu um 27 milljörðum króna og jukust um 36% milli ára en eigið fé nam 38 milljörðum króna og dróst saman um 24%. Eiginfjárhlutfall félagsins stóð því í 59% í árslok, samanborið við 72% ári fyrr.

Í skýrslu stjórnar er meðal annars fjallað um kvörtun félagsins til Samkeppniseftirlitsins á síðasta ári, er beindist gegn Landsvirkjun, og að félagið hafi dregið hana til baka eftir að félögin undirrituðu viðauka við raforkusamning þeirra í febrúar síðastliðnum.

Þá segir að vegna hins nýja samningsviðauka, hækkandi álverðs undanfarið og hagfelldrar markaðsspár álykti stjórn félagsins að ekkert bendi til langvarandi rýrnunar rekstrareigna og að rekstur félagsins verði framhaldið um fyrirsjáanlega framtíð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Rio Tinto Straumsvík