Bresk-ástralska námufyrirtækið Rio Tinto er að leggja lokahönd á yfirtökutilboð í kanadíska álfélagið Alcan upp á 34 milljarða Bandaríkjadala, að því er breska dagblaðið The Times greinir frá í gær. Sérfræðingar á Wall Street segjast gera ráð fyrir því að Rio Tinto, sem er annað stærsta námufyrirtæki heimsins, muni væntanlega gera formlegt tilboð í Alcan innan næstu tveggja vikna.

Stjórnendur Alcan hafa unnið hart að því undanfarnar vikur og mánuði að hindra yfirtökuáform bandaríska álrisans Alcoa á félaginu, en þann 7. maí síðastliðinn lagði Alcoa fram 27,96 milljarða dala yfirtökutilboð í Alcan. Því tilboði var illa tekið af stjórnendum Alcan og ráðlögðu þeir hluthöfum að hafna því. Á mánudaginn ákvað Alcoa að framlengja tilboð sitt óbreytt fram til 10. ágúst næstkomandi.

BHP Billiton horfir til Alcoa
Þrátt fyrir að forsvarsmenn Alcan hafi ekkert viljað tjá sig um málið við fjölmiðla í gær gaf félagið það engu að síður í skyn að mikill skriður væri kominn í áformum þess að takast að fá önnur fyrirtæki til að gera vinveitt yfirtökutilboð í Alcan. Fram kemur í gögnum sem Alcan sendi bandaríska verðbréfaeftirlitinu (SEC) á mánudaginn að félagið hafi byrjað viðræður við annan aðila sem gæti verið hugsanlegur valkostur við yfirtökutilboð Alcoa, en ekki er greint frá því um hvaða félag er að ræða.

Kanadíska dagblaðið The Globe and Mail fullyrðir hins vegar að hinn svokallaði "hvíti riddari" sé Rio Tinto og hefur blaðið jafnframt eftir heimildarmönnum sínum að námufyrirtækið hafi nú þegar ráðið til sín fjárfestingarbankann CIBC til að veita félaginu ráðgjöf við að undirbúa yfirtökutilboð í Alcan. Stærsta námufyrirtæki heims, BHP Billiton, sem oft hefur verið nefnt á nafn í þessu samhengi er aftur á móti nú talið hafa meiri áhuga á því að yfirtaka Alcoa.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.