Landsvirkjun getur ekki lækkað raforkuverðið nema það hafi mjög sterk rök til þess,“ segir Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum. Rio Tinto kallaði eftir því í síðustu viku að rafmagnsreikningur álversins í Straumsvík (ISAL) yrði lækkaður. Ella væri hætta á að félagið lokaði álverinu.

Landsvirkjun hefur lýst sig viljuga til að ræða hver rótin af rekstrarvanda álversins sé en álverð er lágt sem stendur. Ekki sé tímabært á þessu stigi að taka upp raforkusamninginn. Sterk móðurfélagsábyrgð er í samningnum sem þýðir að móðurfélag Rio Tinto þarf að kaupa stóran hluta raforkunnar sem félagið hefur samið um að kaupa til ársins 2036.

Erfitt að meta fjárhag álveranna

Bent hefur verið á að erfitt geti verið að átta sig á raunverulegri fjárhagslegri stöðu íslensku álveranna vegna mikilla viðskipta við tengda aðila. Félögin kaupa bæði súrál og selja ál innan samstæðu eða til tengdra félaga. Erlend móðurfélög eru auk þess helstu lánveitendur félaganna auk þess að þau greiða mörg hver háar greiðslur til móðurfélaga, fyrir atriði á borð við tæknilega aðstoð, sölu- og stjórnunarkostnað. Eigendum álveranna, líkt og fleiri alþjóðlegum stórfyrirtækjum, hefur því verið legið á hálsi fyrir að geta stýrt því upp að vissu marki í hvaða félögum eða löndum innan samstæðunnar hagnaður myndist. Ketill segir ekki hægt að leggja mat á hvernig álverið standi nema kafa í innanhúsgögn fyrirtækisins.

„Það getur enginn utanaðkomandi lagt mat á þetta. Landsvirkjun og Rio Tinto verða að skoða þetta saman,“ segir Ketill. „Það er ekki nóg fyrir Landsvirkjun að ISAL segi að við þurfum lægra raforkuverð. Þeir þurfa að sýna fram á það. Landsvirkjun þarf að fá allar upplýsingar sem þeir vilja fá í bókhaldi ISAL um rekstur álversins,“ segir Ketill.

Myndi veikja samningsstöðu Landsvirkjunar til framtíðar

Ketill segir ljóst að það myndi veikja samningsstöðu Landsvirkjunar til framtíðar við alla stóriðju ef endursamið yrði við Rio Tinto. „Ef Landsvirkjun fellst á að taka upp samninginn blasir við að samningsstaða Landsvirkjunar verði ekki jafn sterk lengur. Þá er búið að gefa fordæmi fyrir því að hægt sé að panta lækkun á raforkuverði,“ segir Ketill.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .