Í yfirlýsingu frá stjórn Spron kemur fram að þrír af fimm stjórnarmönnum félagsins seldu stofnfjárbréf fyrir breytingu Spron í hlutafélag og skráningu í Kauphöll Íslands.  Stjórn Spron tekur fram að henni var ekki heimilt að birta upplýsingar um viðskipti innherja en í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað segja stjórnarmenn Spron að þeim sé ljúft að upplýsa um viðskipti sín á umræddu tímabili.

Tveir stjórnarmenn seldu enga stofnfjárhluti á umræddu tímabili, Ari Bergmann Einarsson sem átti (auk fjárhagslegra tengdra aðila) 110.279.318 stofnfjárhluti að nafnvirði og Erlendur Hjaltason (auk fjárhagslegra tengdra aðila) sem átti 6.643.332 stofnfjárhluti að nafnvirði.

Hildur Petersen, stjórnarformaður Spron, og tengdur aðili seldu á tímabilinu stofnfjárhluti að nafnvirði kr. 7.201.353. Hluti af þeim var seldur til tengds aðila eins og áður hefur komið fram.  Eftir söluna áttu Hildur og fjárhagslega tengdir aðilar 19.814.865 stofnfjárhluti að nafnvirði.

Ásgeir Baldurs seldi stofnfjárhluti að nafnvirði kr. 270.952. Eftir söluna áttu Ásgeir og fjárhagslega tengdir aðilar 476.901.775 stofnfjárhluti að nafnvirði.

Fyrirtæki tengt Gunnari Þór Gíslasyni seldi stofnfjárhluti að nafnvirði kr. 188.657.257 á tímabilinu. Eftir söluna átti fyrirtækið 286.915.556 stofnfjárhluti að nafnvirði.

Stjórn Spron áréttar í yfirlýsingu sinni að allir stjórnarmenn eigi enn í dag meirihluta þeirra bréfa sem þeir áttu fyrir 7. ágúst, þegar markaði með stofnfjárhluti var lokað. Einnig að þeir stjórnarmenn sem seldu stofnfjárhluti á þessu tímabili seldu aðeins hluta af stofnfjáreign sinni í Spron. Stjórn Spron tekur fram að hún hafi  vitaskuld fulla trú á fyrirtækinu og undirstrikar að ástæður þess að stjórnarmenn seldu hluta af stofnfjáreign sinni á þessu tímabili voru fyrst og fremst persónulegar.

Undir þetta rita

Hildur Petersen Ari Bergmann Einarsson Ásgeir Baldurs Erlendur Hjaltason Gunnar Þór Gíslason