Sigurður T. Magnússon, saksóknari í Baugsmálinu, hefur endurútgéfið 19 af þeim 32 liðum ákærunnar sem Hæstiréttur Íslands vísaði frá dómi í október í fyrra, segir í tilkynningu frá Baugi.

Í tilkynningunni segir að þrír séu endurákærðir, og á meðal þeirra eru Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri félagsins.

Allir ákæruliðirnir koma fyrir í eldri útgáfu hennar, en hefur verið raðað upp með öðrum hætti. Ákæran lýtur meðal annars að meintu auðgunarbroti í tengslum við kaup Baugs á 10/11 verslunum á árunum 1998-99, meintum ólögmætum lánveitingum til Gaums og skyldra aðila, meintum bókhaldsbrotum og meintum auðgunarbrotum í tengslum við rekstur skemmtibáts í Flórída.

?Baugur Group lýsir yfir vonbrigðum með að ákveðið hafi verið að halda málrekstri þessum áfram. Félagið hefur mátt þola mikið tjón af völdum langdreginnar rannsóknar, sem leiddi til þess eins að 32 ákæruliðum af 40 var vísað frá dómi og allir sakborningar sýknaðir af þeim 8 ákæruliðum, sem komu til dóms í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. mars síðastliðinn," segir í tilkynningu félagsins.

Sakborningarnir, Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson, hafa ákveðið að leita réttar síns fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strasbourg og njóta til þess stuðnings stjórnar Baugs Group.