Þrír framkvæmdastjórar Nýja Kaupþings létu af störfum í gær.

Það voru Bjarki Diego, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs en hann var einnig í skilanefnd bankans, Þórarinn Sveinsson, framkvæmdastjóri eignastýringasviðs, og Guðný Arna Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrar.

Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins en þremenningarnir gegndu allir hliðstæðum störfum í gamla Kaupþingi.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að hann teldi mikilvægt að skerpa skilin milli fortíðarinnar og gamla Kaupþings annars vegar og Nýja Kaupþings og framtíðarinnar hins vegar. Því væru starfslok framkvæmastjóranna umsamin niðurstaða.

Sex framkvæmdastjórar sem störfuðu í gamla Kaupþingi starfa enn í bankanum. Finnur segir að þeir verði áfram í bankanum og síðan komi í ljós hvað gerist í framtíðinni.