Stofnaður hefur verið nýr einkafjármagnssjóður, Arev N1, sem mun hafa allt að þrjá milljarða króna til fjárfestinga í íslenskum neytendavörufyrirtækjum, aðallega á sviði heildsölu, smásölu og þjónustu. Sjóðurinn er í eigu Eignarhaldsfélagsins Arev og Icebank.


Í tilkynningu félagsins kemur fram að Arev N1 er eini sjóðurinn með þessu sniði hér á landi sem fjárfestir í neytendavörufyrirtækjum en þetta fyrirkomulag er þekkt í öðrum geirum atvinnulífsins. Sjóðurinn mun fjárfesta að jafnaði 50-200 milljónir króna í fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði sjóðsins.


Arev N1 semur við fyrirtækið Arev verðbréf um ráðgjöf og eignastýringu en innan fyrirtækisins er talsverð þekking og reynsla á sviði greininga og reksturs smásölufyrirtækja. ?Við leggjum sérstaka áherslu á virka þátttöku, stefnumótun og innleiðingu og störfum náið með stjórnendum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í. Ávinningur fyrirtækjanna er því ekki einungis fjármagn heldur líka aðgangur að sérfræðiþekkingu og reynslu,? segir Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Arev verðbréfa.


Fjárfestingarmöguleikar eru margir í þessum geira að sögn Elínar en sjóðurinn starfar eftir mjög skýrum reglum um þau fyrirtæki sem fjárfest verður í. Jafnan er um að ræða fyrirtæki sem hyggja á breytingar eða sjá fram á mikinn vöxt og þurfa því aukið fjármagn.


Arev N1 er byggður á grunni eignasafns sem Eignarhaldsfélagið Arev hefur byggt upp síðustu ár. Sjóðurinn hefur nú fjárfest í sex íslenskum fyrirtækjum, þ.á m. Áltaki, Sól, Vínkaupum, Yggdrasil og Lífsins tré og skoðar nú fleiri fjárfestingartækifæri.