Ráðnir hafa verið þrír nýir framkvæmdastjóra hjá Ölgerð Egill Skallagrímsson. Það eru Hörður Harðarson, framkvæmdastjóri markaðssviðs, Friðjón Hólmbertsson, framkvæmdastjóri veitingasviðs, og Kjartan Páll Eyjólfsson, framkvæmdastjóri sölusviðs.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að Hörður hafi starfað hjá Ölgerðinni frá haustmánuðum 2003 en þá var hann ráðinn í tímabundið vöruþróunarverkefni. Skömmu síðar tók Hörður við starfi aðstoðarmanns forstjóra og sá m.a. áfram um alla vöruþróun hjá fyrirtækinu, auk þess að sitja í framkvæmdastjórn og annast rekstur tölvudeildar. Samhliða ráðningu Harðar flyst öll vöruþróun yfir á markaðssvið.

Hörður lauk BS gráðu í markaðsfræðum frá Tækniháskóla Íslands árið 2000 og mastersgráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Strathclyde Háskólanum í Glasgow árið 2002. Á árunum 1999-2002 starfaði hann á markaðssviði Norðurljósa, nú 365 ljósvakamiðla, og sá m.a. um markaðsmál fyrir sjónvarpsstöðina SÝN, verkefnisstjórn HM2002-verkefnis Norðurljósa og umsjón með M12 tryggðarkerfinu. Hörður hefur verið stundakennari við Tækniháskóla Íslands. Eiginkona hans er Guðríður Matthíasdóttir flugfreyja og eiga þau tvö börn.

Friðjón hóf störf hjá Ölgerðinni fyrir tveimur árum sem sölustjóri veitingadeildar. Hann hefur viðamikla reynslu á veitingasviðinu en undanfarin tíu ár hefur hann starfað við vín- og veitingageirann. Hann var hluthafi og einn af stofnendum Tanksins ehf. sem á og rekur Burger King og TGI Fridays á Íslandi. Áður en Friðjón hóf störf hjá Ölgerðinni var hann sölustjóri áfengis hjá heildverslun Karls K. Karlssonar en frá árinu 1995 til 2001 var hann sölu- og markaðsstjóri Allied Domecq á Íslandi. Friðjón er giftur Sæunni Sylvíu Magnúsdóttur, bókara hjá Kuggi ehf., og eiga þau þrjú börn á aldrinum 4 til 16 ára.

Kjartan Páll Eyjólfsson hóf störf hjá Ölgerðinni árið 2002 sem vöruflokkastjóri en undanfarið ár hefur hann starfað sem sölustjóri yfir stórmörkuðum þar sem hann ber ábyrgð á sölu og samskiptum við innkaupastjóra. Ábyrgðarsvið Kjartans í dag er sala á öllum vörum Ölgerðarinnar utan áfengis, í stórmörkuðum, bensínstöðvum eða söluturnum. Kjartan ber einnig ábyrgð á útibúum Ölgerðarinnar um allt land.

Kjartan lauk BS gráðu í markaðsfræðum frá Coastal Carolina University árið 2002 en áður en hann hélt utan til náms starfaði hann hjá sölu- og markaðsdeild Mjólkursamsölunnar og síðar hjá Sól Víking. Á þessum tíma öðlaðist Kjartan víðtæka reynslu í sölu- og markaðsmálum á drykkjarvörumarkaði. Kjartan er giftur Hildigunni Garðarsdóttur, flugfreyju hjá Icelandair, og eiga þau tvo syni á aldrinum eins og 8 ára.