Þrír starfsmenn markaðsviðskipta HF verðbréfa hættu skyndilega í síðustu viku og hófu störf í lok vikunnar á Arcitca Finance. Þeirra á meðal er Agnar Hansson sem stýrði markaðsviðskiptum HF verðbréfa. Með honum fóru Héðinn Þórðarson og Tryggvi Sveinsson.

„Það er ljóst að menn voru ekki sammála um leiðir," segir Halldór Friðrik Þorsteinsson forstjóri HF Verðbréfa. Hann segir öllum fyrir bestu að tjá sig ekki ítarlega um þessi mál í fjölmiðlum. Þetta sé innanhússmál sem brjótist út með þessum hætti. Markaðsviðskipti verði áfram stór hluti af starfsemi HF Verðbréfa og alltaf komi maður í manns stað.

Agnar Hansson segir eins og Halldór að það hafi verið ágreiningur um stefnu sem réði þessari ákvörðun. Að öðru leyti sé lítið um málið að segja og ekkert óeðlilegt að menn færi sig til í starfi.

Arctica Finance er sagt veita fagfjárfestum og öðrum fjársterkum aðilum ráðgjöf, s.s. í tengslum við kaup og sölu fyrirtækja eða rekstrareininga, fjármögnun, fjárhagslega endurskipulagningu og annað því tengt. Fyrirtækið var stofnað í kjölfar bankahrunsins, meðal annars af fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans. Nú eru uppi áform um að útvikka starfsemina meðal annars með verðbréfamiðlun sem Agnar, Héðinn og Tryggvi munu byggja upp.

Ekki náðist í Bjarna Þórð Bjarnason hjá Arcitca Finance vegna þessara frétta.

Tveir aðrir starfsmenn hafa tilkynnt um uppsögn sína á HF Verðbréfum en ekki í tengslum við þessa uppstokkun samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Það eru þau Hulda Pjetursdóttir og Gísli Kristjánsson. Gísli er að vinna út uppsagnarfrest en Hulda er hætt. Eftir að Gísli hættir hafa fimm af sex starfsmönnum í markaðsviðskiptum HF Verðbréfa hætt störfum.