Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins hefur haldið þrjátíu fundi síðasta mánuðinn og var lokahnykkurinn í þeirri fundarherferð í hádeginu í Valhöll í dag. Fyrir landsfundi Sjálfstæðisflokksins liggur að taka afstöðu til ESB.

Forysta nefndarinnar segir þrjá valkosti í stöðunni. Í fyrsta lagi að sótt verði um aðild að ESB. Aðildarviðræður hefjist og niðurstöður bornar undir þjóðaratkvæði.

Í öðru lagi að hafnar verði aðildarviðræður undir forystu Sjálfstæðisflokksins um mögulega inngöngu í ESB með víðtækri samstöðu um samningsskilyrði. Nái þau skilyrði fram að ganga verði niðurstöðurnar bornar undir þjóðaratkvæði.

Í þriðja lagi að aðild að ESB þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar eins og málum sé háttað.

Kristján Þór Júlíusson, formaður nefndarinnar og Árni Sigfússon varaformaður kynntu vinnu nefndarinnar á fundinum í hádeginu í dag.

Fram kom í máli einstakra fundarmanna, meðal annars Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, að bæta þyrfti fjórða valmöguleikanum við, þ.e.a.s. þeim valkosti að kannað verði hvort hægt sé að taka einhliða upp evru.

Mikill áhugi á landsfundinum

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að mikil umræða hefði farið fram um Evrópumál eftir að Evrópunefndin hefði verið sett á laggirnar. Vegna þeirrar vinnu gæti flokkurinn tekið vel ígrundaða ákvörðun um Evrópusambandsmálin á komandi landsfundi.

Mikill áhugi væri á landsfundinum og kæmust færri að en vildu. Um tvö þúsund sjálfstæðismenn munu eiga seturéttu á fundinum.