Eignarhaldsfélagið Fasteign á í viðræðum við Deutsche Bank um stóra lántöku. Bergur Hauksson, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins, staðfestir það í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef átt í viðræðum við þá og þeir hafa verið nokkuð jákvæðir en það er ekki komin niðurstaða í málið ennþá,“ upplýsir hann og væntir niðurstöðu um miðjan ágústmánuð. Sumarfrí starfsmanna bankans hægja meðal annars á ferlinu auk þess sem bankinn gætir ýtrustu varkárni í ljósi myrks fréttaflutnings erlendra fjölmiðla um efnahagsástandið hér, sem margir Íslendingar telja rangan.

„Ástandið er snúið og ýmsir bankar hafa sagt að þeir vilji ekki koma nálægt Íslandi eins og er. Það væri mjög ánægjulegt ef Deutsche Bank myndi eiga við okkur viðskipti. Uppgjörið [fyrir fyrri helmings ársins] var gott og ég hef því ekki trú á öðru,“ segir Bergur.

Í eigu sveitafélaga, fjármálafyrirtækja og háskóla

Fasteign er í eigu ellefu sveitarfélaga auk Glitnis, Sparisjóðs Mýrasýslu, Kreditkorta, Borgunar og Háskólans í Reykjavík. Eigendur eru jafnframt leigutakar.

Ekki hefur verið gengið frá lánsfjárupphæðinni en eftir því sem næst verður komist er um háa fjárhæð að ræða. Deutsche Bank ræðir ekki við íslensk fyrirtæki nema svo sé auk þess sem rekstur fasteignafélagsins er umfangsmikill.

Í fréttatilkynningu um ársuppgjör félagsins segir að það eigi um 130 þúsund fermetra húsnæðis í rekstri eða á byggingarstigi og er verðmæti þess metið á um 33 milljarða króna.

Getur líklega boðið hagstæðari kjör

Bergur segir að viðræðurnar hafi sprottið upp vegna fjármögnunnar nýrra verkefna en einnig er til umræðu möguleg endurfjármögnun hjá félaginu. „Þetta er stór banki og getur kannski boðið manni hagstæðari kjör en margir aðrir.“

Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum er erfitt að fá lán í evrum frá íslensku bönkunum, þeir sitja fast á þeim vegna eigin endurfjármögnunar. Fasteign gerir upp í evrum sem eru ríflega helmingur leigutekna þess. Því er ákjósanlegt að taka lán í þeim gjaldmiðli. Að sögn Bergs auðveldar það lántökuna frá sjónarhóli bankans að félagið gerir upp í evrum en ekki í krónum.

Hagnaður af rekstri fasteignafélagsins á fyrri hluta ársins var ríflega ein og hálf milljón evra, eða um 197 milljónir króna.