Gjaldmiðlar margra af helstu nýmarkaðsríkjum heimsins hafa fallið að undanförnu, eftir styrkingu Bandaríkjadollars þar sem glittir í endalok tíma ofurlágra vaxta í Bandaríkjunum. Þannig hefur  argentínski  pesóinn  fallið um 25% frá áramótum, tyrkneska líran um 17%, brasilíska  realið  um 11% og rússneska rúblan um 8% gagnvart Bandaríkjadal. Pólska  slotið  og mexíkóski pesóinn hafa fallið um 7% síðan í apríl.

Á undanförnum árum hafa fjárfestar lagt háar  fjárhæðir í fjárfestingar í nýmarkaðsríkjum í von um hærri ávöxtun en boðist hefur víðast hvar á Vesturlöndum. Að sama skapi hafa fyrirtæki og stjórnvöld í nýmarkaðsríkjum sótt í útgáfu skuldabréfa í dollurum vegna hins lága vaxtarstigs.

En nú er að verða breyting þar á. Bandaríski seðlabankinn hóf að hækka stýrivexti á síðasta ári og hefur boðað frekari stýrivaxtahækkanir á þessu ári og því næsta. Þetta hefur átt þátt í að fjárfestar hafa fært fé sitt frá nýmarkaðsríkjum á undanförnum vikum, einna helst þeim þar sem fjárfestar hafa ekki haft trú á að sannfærandi skref verið stigin til að draga úr viðvarandi fjárlagaog viðskiptahalla ríkjanna. Það hefur haft í för með sér gengisfall og þar með hærri afborganir af lánum í erlendri mynt, verra lánshæfismat, sem þýðir enn hærri vexti, og enn frekari flótta fjárfesta sem aftur veldur frekari gengislækkun.

Seðlabankar landa með sjálfstæða peningastefnu standa þá frammi fyrir tveimur vondum kostum. Annaðhvort að hækka stýrivexti til að reyna að fá fjárfesta ofan af því að flytja fé úr landi en eiga þá hættu á skapa efnahagssamdrátt í heimalandinu með hækkun vaxta, eða halda vöxtum lágum en mega þá búast við gengisfalli. Bandaríski nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman segir stöðuna nú að mörgu  leyti  minna á aðdraganda fjármálakreppunnar í Austur- og Suðaustur-Asíu árið 1997.  Hagfræðingurinn Carmen Reinhart varar við að auknar skuldir ríkjanna, yfirvofandi við- skiptastríð, hærra vaxtastig og hægari hagvöxtur geri stöðu nýmarkaðsríkjanna viðkvæmari en hún var fyrir fjármálakreppuna árið 2008.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .