*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 27. apríl 2020 14:45

Rís sem raketta en fellur sem fjöður

Framkvæmdastjóri FÍB telur lækkun olíuverðs skili sér hægt til neytenda og hvetur olíufélögin til að hagræða í stað þess að hækka álagningu.

Ingvar Haraldsson
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.
Haraldur Guðjónsson

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir álagningu olíufélaganna hafa færst nær sögulegri álagningu þeirra eftir lækkun á bensínverði hér á landi í síðustu viku. „Þá fóru þau að klípa hvert í annað,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Álagningin sé þó enn í hærra lagi miðað við sögulegt meðaltal. Í apríl í heild sé álagningin um tíu krónum yfir sögulegri meðalálagningu félaganna. 

Runólfur, gagnrýndi olíufélögin um mánaðamótin fyrir að hafa ekki lækkað eldsneytisverð hraðar. Svo virtist vera að þau væru að reyna að bæta sér upp minni eldsneytissölu með því að lækka ekki eldsneytisverð. Síðan þá hafa flest olíufélögin lækkað eldsneytisverð um 6-7 krónur samkvæmt vefnum Gasvaktin ef undan er skilin Dælunni sem lækkað hefur verð um 16 krónur á lítrann og Costco en þar hefur bensínverðið ekki breyst frá því í mars.

„Það getur verið ákveðin freisting í því að halda hærra lítraverði á móti minnkandi umsvifum,“ segir Runólfur nú.

Costco áfram ódýrast

Bensínlítrinn er eftir sem áður ódýrastur hjá Costco og kostar 180,9 krónur, líkt og raunin hefur verið frá því í mars. Lítrinn hjá Costco kostaði 198 krónur um áramótin.

Þá kostar bensínlítrinn 184,9 krónur hjá Atlantsolíu á Kaplakrika og Sprengisandi en almennt bensínverð hjá fyrirtækinu er 210,5 krónur en var 237,4 krónur í byrjun ársins.

Bensínlítrinn hjá Dælunni kostar nú 199,9 krónur en var á tæpar 220 krónur um ármótin. Hjá N1 og Olís kostar bensínlítrinn tæpar 212 krónur en var á tæplega 243 krónur í byrjun ársins. Þá kostar bensínlítrinn hjá Orkunni 210,4 krónur en var á tæplega 241 krónur í byrjun þessa árs.

Raketta á leiðinni upp en fjöður á leiðinni niður

Runóflur bendir á að á Norðurlöndunum skili lækkun á heimsmarkaðsverði á olíuverð alla jafna mun hraðar en hér á landi.

Runólfur vísar til niðurstöðu skýrslu Samkeppniseftirlitsins á olíumarkaðnum. Þar hafi niðurstaðan verið að verðhækkanir heimsmarkaði á olíu skiluðu sér eins og raketta í verðhækkunum á bensínstöðvum. Þegar olíuverð lækki minni lækkunarferlið hér á landi fremur á fjöður að svífa til jarðar. 

Tímabært að loka bensínstöðvum?

Runólfur segir að í stað þess að bregðast við minni eldsneytissölu með aukinni álagningu hvetur hann félögin fremur til að hagræða. Það séu viðbrögð sem tíðkist í eðlilegu samkeppnisumhverfi. Til að mynda mætti hugsa sér að loka óarðbærum bensínstöðvum. 

Verðhrun hefur verið á olíumörkuðum síðustu vikur. Verð á fati af Brent hráolíu kostar nú tæplega 20 dollara, en stóð í um 69 dollurum um áramótin og hefur því fallið yfir 70% á árinu. Verð á lítra af bensíni hér á landi hefur lækkað um allt að 30 krónur á þessu ári.

Runólfur bendir á að bensín sé sérstök vara þar sem um 65% af bensínlítranum sitji eftir hjá ríkinu í formi skatta og gjalda en afgangurinn skiptist á milli innkaupaverðs og álagningar olíufélaganna.

Stikkorð: Brent FÍB olíuverð Runólfur Ólafsson