Japanska fyrirtækjasamsteypan GMO Internet Inc. kom afar illa út úr skammvinnum rekstri gagnavers á Íslandi. Íslenskt dótturfélag þess, GMO Zcom Iceland ehf., afskrifaði nýtt gagnaver á Íslandi að fullu á fyrsta heila starfsárinu árið 2018 og skilaði 7,5 millljarða króna tapi.

Til að setja tapið í samhengi tapaði ekkert þeirra félaga sem fjallað var um í bókinni 300 stærstu, yfir afkomu stærstu fyrirtækja landsins árið 2018, jafn miklu.

Fóru af stað á versta tíma

GMO Internet fór út í rafmyntagröft á hápunkti Bitcoin-æðisins undir lok árs árið 2017 en segja má að félagið hafi misst af lestinni. Í sömu viku og Bitcoin náði sínu hæsta gildi frá upphafi, um 19 þúsund dollurum, hóf félagið rafmyntagröft á Íslandi, en félagið var með starfsemi í gagnaveri Advania Data Centers, sem nú heitir Atnorth, að Fitjum í Reykjanesbæ. Í kjölfarið hrundi hins vegar verð á Bitcoin. Ári síðar hafði Bitcoin fallið um 80%, úr um 19.000 dollurum í 3.800.

Masatoshi Kumagai, er stofnandi, forstjóri og stærsti hluthafi GMO Internet og einn ríkasti maður Japan í krafti hlutafjáreignar sinnar í félaginu.

Því tilkynnti félagið á jóladag árið 2018 að það myndi afskrifa nær alla fjárfestingu sína á Íslandi og í öðru nýju gagnaveri í Noregi og gafst um leið upp á áformum um að þróa tölvubúnað til vinnslu rafmynta. Félagið afskrifaði jafnvirði 47 milljarða króna í árslok 2018 miðað við núverandi gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni, þar af um 17 milljarða vegna gagnaveranna á Íslandi og í Noregi og 30 milljarða vegna þróunar á tæknibúnaði fyrir rafmyntir sem til stóð að selja öðrum sem stunduðu rafmyntanámugröft.

Tölvubúnaðurinn reyndist dýr

Segja má að GMO hafi farið út í rafmyntagröft á versta tíma. Félagið keypti tölvubúnað til framleiðslu á Bitcoin þegar verðið var í hámarki seint á árinu 2017. Í uppgjöri félagsins frá því í ágúst 2018 kom fram að verð á sambærilegum tölvubúnaði og það hefði keypt í uppsveiflunni, hefði fallið um 77%. Félagið vanmat einnig gróflega hve mikið framleiðslugeta annarra sem stunduðu rafmyntagröft myndi aukast.

Samanlögð vinnslugeta allra þeirra sem grófu eftir rafmyntum áttfaldaðist frá september 2017 til október 2018 og var þá orðin yfir tvöfalt meiri en áætlanir GMO gerðu ráð fyrir, en félagið hafði stefnt á að ná 10% markaðshlutdeild á heimsvísu. Vegna aukinnar samkeppni varð því mun minna upp úr rafmyntagreftri að hafa en forsvarsmenn GMO bjuggust við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .