Upplýsingatæknifélagið Advania var metið á hátt í 60 milljarða króna þegar sjóður Goldman Sachs keypti meirihluta í félaginu fyrr á árinu ef marka má söluandvirði fjárfestingarfélags sem átti fjórðungshlut í Advania við söluna. Miðað við fjárhæðina er salan á Advania til Goldman Sachs ein stærsta fyrirtækjasala hér á landi síðustu ár og má ætla að virði Advania hafi margfaldast á nokkrum árum.

Í ársreikningi Nordic IT Holding Ltd fyrir árið 2020 kemur fram að félagið hafi fengið 84,5 milljónir punda greiddar við sölu á hlut sínum í Advania, jafnvirði um 14,5 milljarða íslenskra króna.Nordic IT Holding Ltd átti 25% hlut í Advania. Út frá því má áætla að Advania í heild sé um 58 milljarða króna virði.

Velta Advania hefur meira en fimmfaldast frá árinu 2015 og nam yfir 70 milljörðum króna í fyrra. Vöxturinn hefur ekki síst verið studdur með kaupum á félögum á Norðurlöndunum.

Þegar greint var frá sölunni í febrúar kom fram að Goldman Sachs hygðist leggja Advania til fé til að styðja við frekari vöxt með sama stjórnendateymi. Stefnt var á frekari kaup á fyrirtækjum og innri vöxt. Það sem af ári hefur Advania þegar tilkynnt um kaup á þremur félögum á Norðurlöndunum.

Nánar er fjallað um söluna á Advania í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .