Fimm af stærstu bönkum Bretlands borguðu engan fyrirtækjaskatt þrátt fyrir að hagnast um milljarða punda. Frá þessu greinir Reuters.

JP Morgan, Bank of America Merrill Lynch, Deutsche Bank, Nomura Holdings og Morgan Stanley greiddu ekki krónu í fyrirtækjaskatt, en þeir notuðu tap frá árunum áðum til að vega upp gegn skattskyldum tekjum. Bankarnir hafa til þessa neitað að tjá sig um málið en í skattaskilum þeirra kemur fram að lögum hafi verið fylgt.

Rannsókn Reuters leiddi í ljós að sjö bankar, sem innihéldu að auki Goldman Sachs og UBS, notuðu skattfríðindi og tap úr bankahruninu til að lækka skattkostnað sinn. Alls borguðu þessir bankar einungis 20 milljónir punda í fyrirtækjaskatta árið 2014 þó að hagnaður þeirra hafi alls verið 3,6 milljarðar punda og tekjur þeirra 21 milljarður punda. 33.000 manns störfuðu hjá bönkunum.

Í skattaskýrslum bankanna kemur fram að farið hafi verið eftir breskum skattalögum og að skattagreiðslur geti verið sveiflukenndar og innihaldið hagnað eða töp frá árunum á undan.