Félagið SJ1, dótturfélag Glitnis, seldi á dögunum skrifstofubyggingu í borginni Ghent í Belgíu fyrir 105,7 milljónir evra, jafnvirði 16,2 milljarða íslenskra króna. Þetta eru einhver umfangsmestu fasteignaviðskipti í Belgíu síðastliðin átta ár.

Kaupandinn er ADIA, Abu Dhabi Investment Authority, ríkisfjárfestingarsjóður stjórnvalda. Jóhann Friðrik Haraldsson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá SJ1 ehf, stýrði viðskiptunum.

Bótasjóður Sjóvár keypti fasteignina, sem telur um 66 þúsund fermetra á tíu hæðum, um mitt ár 2006 fyrir milligöngu bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns fyrir 160 milljónir evra, jafnvirði í kringum 13 milljarða króna á þávirði. Húsið var byggt árið 2002 og var belgíska ríkið með megnið af leigusamningunum.

Urðu að lækka verðið

Jóhann segir í samtali við vb.is að ástæða þess að byggingin í Ghent hafi verið var seld þá að þegar kom að gjalddaga sambankaláns sem Sjóvá tók hjá nokkrum erlendum bönkum á sínum tíma til að fjármagna kaupin hafi ekki verið samstaða í þeirra röðum um að lengja í lánum. Hins vegar náðist sátt um að setja fasteignina í söluferli. Söluráðgjafar voru ráðnir fyrir um ári síðan.

Í upphafi söluferlisins var verðmat skrifstofubyggingarinnar um 130 milljónir evra. Jóhann segir hins vegar að aðstæður hafi ekki verið með besta móti, verð fyrir atvinnuhúsnæði lækkað mikið í Niðurlöndum í kjölfar kreppunnar og mörg fasteignaverkefni á teikniborðinu í Ghent á sama tíma og skrifstofubygging SJ1 kom inn á markaðinn. Þá hafi fjárfestum sem hafi skoðað skrifstofubygginguna þótt hún of stór – enda stærsta skrifstofubygging borgarinnar.

„Þegar þetta lá fyrir var ákveðið að lækka verðið og þá fyrst fóru fjárfestar að sýna byggingunni áhuga,“ segir Jóhann.