Hlutabréf í Methanex Corporation hækkuðu um 2,62% við opnun markaða í morgun, en fyrirtækið er meðal annars skráð á Nasdaq.

Tilkynnt var í morgun að Methanex hefði lagt 600 milljóna króna nýtt hlutafé, eða 5 milljónir bandaríkjadala, í íslenska metanólframleiðslufyrirtækið Carbon Recycling International. Methanex verður einn af stærstu hluthöfum CRI og tekur sæti í stjórn fyrirtækisins. Í tilkynningu vegna fjárfestingarinnar er tekið fram að fyrirtækið áformar jafnframt aukna fjárfestingu til að styðja áframhaldandi vöxt CRI.

Markaðsvirði Methanex nemur nú 4,45 milljörðum bandaríkjadala. Það samsvarar um 534 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður fyrirtækisins var 486 milljónir dollara árið 2012, eða rúmir 58 milljarðar íslenskra króna og gott betur árið undan eða 500 milljónir dollara.

Methanex er alþjóðlegt fyrirtæki og var stofnað árið 1992. Verksmiðjur þess eru í Kanada, Síle, Egyptalandi, Trinidad og Nýja Sjálandi. Á vefsíðu fyrirtækisins kemur fram að um 1000 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu og eru stjórnendur þess víðsvegar að úr heiminum.

Fyrirtækið var skráð á markað í Kauphöllinni í Toronto árið 1992 og var skráð á NASDAQ í Bandaríkjunum í maí sama ár. Árið 2007 var fyrirtækið svo skráð á markað í Síle.