Ríkisbréfaflokkurinn RB 10 1012 (RB 10) fellur á gjalddaga þann 10. desember næstkomandi en hann er nær eingöngu í eigu erlendra aðila, eða 93% í lok september. Markaðsvirði flokksins er í dag um 53 milljarðar króna. Hvert þetta fjármagn mun leita eftir gjalddaga er stærsta spurningin, segir greining Arion banka.

„Munu erlendir aðilar færa sig í aðra styttri ríkisbréfaflokka, eða e.t.v. innlán og/eða munu þeir skipta stórum hluta af vaxtagreiðslunum í erlendan gjaldeyri?“

Segir að styttri tími í gjalddaga og hærri vaxtagreiðslur aðgreini RB 10 frá öðrum ríkisbréfaflokkum. Þannig eru vaxtagreiðslur lengri flokka ríkisbréfa á bilinu 6-8,75% en vaxtagreiðsla RB 10 nemur 13,75%. „Því mætti e.t.v. ætla við fyrstu sýn að erlendir aðilar kjósi að kaupa RB 10 svo að þeim sé kleift að skipta vaxtagreiðslum yfir í erlendan gjaldeyri. Raunin hefur reyndar ekki verið sú á undangengnum misserum, þ.e. það er lítil fylgni milli vaxtagreiðslna af ríkisbréfaflokkum til erlendra aðila og veikingar krónunnar. Þó er ekki með öllu hægt að útiloka að raunin verði sú nú þegar flokkurinn lendir á gjalddaga.

Hér má einnig benda á að erlendum aðilum er heimilt að skipta afborgunum og vöxtum af íbúðarbréfum (HFF 14) í erlendan gjaldeyri. Því gætu þeir komið fjármunum sínum úr landi með mun fljótari hætti með kaupum á íbúðarbréfum en með kaupum á ríkisbréfum, en hingað til hafa þeir haft lítinn áhuga á verðtryggðum bréfum eins og staða þeirra gefur til kynna,“ segir í markaðspunkti greiningardeildar Arion banka.

Hvað gerðu útlendingarnir í mars 2010?

„Í mars 2010 féll á gjalddaga stórt skuldabréf, RIKB 10 0317, en erlendir aðilar áttu ríflega 85% af þeim flokki sem svarar til 50 milljarða króna að markaðsvirði (m.v. afborganir höfuðstóls og vaxtagreiðslur). Sama mánuð og flokkurinn féll á gjalddaga juku erlendir aðilar við sig í stystu flokkunum en þó ekki nóg til að vega upp á móti því sem féll á gjalddaga. Hefur því heildareign erlendra aðila í óverðtryggðum ríkisskuldabréfum lækkað töluvert frá byrjun árs. Svo virðist sem að það lausafé sem varð til hjá erlendum aðilum í mars 2010 hafi aldrei skilað sér að fullu aftur inn á skuldabréfamarkaðinn. Því er nærtækast að spyrja hvert peningurinn hefur farið.

Nokkrir möguleikar eru til staðar:

Vaxtagreiðslur hafi farið úr landi. Ekki er hægt að útiloka að eitthvað flæði hafi verið úr krónunni í formi vaxtagreiðslna af ríkisbréfum. Gengi krónunnar hefur ekki veikst í kringum stóra gjalddagi sem gefur vísbendingu um að öll vaxtagreiðslan hafi ekki farið samstundis úr landi.

Erlendir aðilar hafi fjárfest í innlánum. Samkvæmt riti um Fjármálastöðugleika hafa innlán erlendra aðila í krónum aukist um 39 milljarða á fyrstu 6 mánuðum árisins. Þetta virðist því skýra einhvern hluta af flæði erlendra aðila úr ríkisbréfaflokkunum. Svo má að lokum velta því fyrir sér hvort erlendir aðilar hafi fjárfest í öðrum verðbréfum (t.d. verðtryggðum eða óskráðum skuldabréfum)

Hvað gera útlendingarnir í desember?

Ef sagan endurtekur sig munu þeir kaupa töluvert í stystu flokkunum nú í desember. Svigrúmið er þó mismikið eins og myndin hér að neðan sýnir, þar sem bláa súlan sýnir eign innlendra fjárfesta, þ.e. sú fjárhæð sem erlendir aðilar geta fræðilega keypt. Ef aðeins eru skoðaðir stystu flokkarnir er svigrúmið mest í RIKB 11 0722 og RIKB 13 0517.

Þetta gæti hæglega hafa breyst þar sem nýjustu tölur Lánasýslunnar sýna stöðuna eins og hún var fyrir tæpum tveimur mánuðum. Því gætu erlendir aðilar hugsanlega verið byrjaðir að auka hlutdeild sína í þessum flokkum.

Einnig má benda á að töluverð útgáfa átti sér stað í september. T.a.m. hefur RIKB 12 0824 stækkað um 9 ma.kr. og nýr flokkur verið búinn til, RIKB 16 1013, en stærð hans er í kringum 16 milljarðar króna.

Ef hinsvegar er gert ráð fyrir að erlendir aðilar hafi setið á hliðarlínunni síðan í lok september má áætla að þeir geti endurfjárfest fyrir sem nemur 65 mö.kr í styttri ríkisbréfaflokkunum í desember (þ.e. það svigrúm sem er til staðar í dag á stuttu flokkunum). Hér gefum við okkur að sú upphæð sem fellur erlendum aðilum í desember nemi um 44-53 ma.kr. (erum með bil þar sem óvissa ríkir hvort erlendir aðilar hafi tekið þátt í síðustu útboðum).

Framboðs- og eftirspurnarhliðin séð út frá sjónarhóli erlendra aðila:

  • Erlendir aðilar fá í hendurnar 44- 53 ma.kr í desember (bilið táknar óvissu vegna þátttöku þeirra

í skiptiboðinu síðasta föstudag).

  • Fari svo að þeir ákveði allir sem einn að fara með vaxtagreiðsluna út fyrir landssteinana mun

fjárhæðin minnka um 7 milljarða króna (gróft mat).

  • Brúttó framboð óverðtryggða bréfa það sem eftir lifir árs er undir 5 ma.kr (samkvæmt

útgáfuáætlun). Nettó framboð víxla er ekkert.

  • Heildarmarkaðsvirði bréfa á stutta endanum sem útlendingarnir eiga ekki nú þegar (RIKB 11

0722, RIKB 12 0824 og RIKB 13 0517) nemur 56 - 65 mö.kr (bilið táknar óvissu vegna þátttöku útlendinga í skiptiboðinu síðasta föstudag).

Vangaveltur um hugsanlega kröfubreytingu

Eins og áður hefur verið vikið að bendir flest til þess að erlendir aðilar muni endurfjárfesta dágóðum hluta þeirrar fjárhæðar sem fellur á gjalddaga í desember í aðra stutta ríkisbréfaflokka. Að sama skapi mun einhver hluti leita inn á innlánsreikninga, bæði til lengri og skemmri tíma, m.a. til að bíða eftir útboðum síðar meir. Hugsanlega mun einhver hluti vaxtagreiðslunnar leita úr landi og minnka þá fjárhæð sem þarf að endurfjárfesta.

Endurfjárfesting erlendra aðila gæti hæglega haft nokkurn áhrif á kröfu stuttra óverðtryggða bréfa en einnig þarf að taka með inn í reikninginn að erlendir aðilar séu nú þegar byrjaðir að kaupa sig inn í stuttu flokkana og/eða að innlendir aðilar hafi áttað sig á þörf erlendu aðilanna og verið fyrri til ( á slæmri íslensku sagt að „front runna“ þá). Ef svo er, þá er óvíst hvort krafa stuttra óverðtryggða bréfa verður fyrir áhrifum stóra gjalddagans.“