*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 13. maí 2013 13:18

Risagjalddagi á ríkisbréfaflokki framundan

Greining Íslandsbanka telur krónuna geta átt á brattan að sækja eftir stóran gjalddaga á föstudag.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Líkur eru á því að gjaldeyriskaup erlendra aðila eftir gjalddaga á ríkisbréfaflokki RIKB13 á föstudag verði umtalsverð og geti það skýrt veikingu krónunnar að stórum hluta síðustu daga. Skuldabréfaflokkurinn er óverðtryggður, gefinn út árið 2002 og verður gjalddaginn á stærsti frá upphafi, að sögn Greiningar Íslandsbanka. Fram kemur í Morgunkorni deildarinnar að ríkissjóður þarf að greiða 74,1 milljarða króna á föstudaginn. Erlendir aðilar eiga 63,6 milljarða króna í flokknum sem jafngildir 75% af heildarstærð hans að verðbréfalánum meðtöldum. Vaxtagreiðslur til erlendra aðila nema 5,5 milljörðum króna.

Greiningardeildin segir að á miðvikudag muni Lánamál halda útboð á 2ja ára ríkisbréfaflokknum RIKB15 og er því augljóslega ætlað að mæta gjalddaganum á föstudag að hluta. 

Greiningardeildin telur allt að 75 milljarða fara í aðra fjárfestingarkosti á föstudag. 

„Efalítið mun stór hluti þess fjár liggja í innlánsreikningum fjármálastofnana í einhvern tíma fyrst eftir gjalddagann en skila sér síðan í talsverðum mæli inn á markað þegar líður á árið. Þar verður hins vegar ekki um auðugan garð að gresja hvað framboð varðar, sér í lagi fyrir erlenda eigendur sem hafa úr takmörkuðum fjárfestingarkostum að moða.“

Um bréfin í eigu erlendra aðila segir:

„Samkvæmt núverandi gjaldeyrisreglum er þeim heimilt að kaupa gjaldeyri fyrir vaxtatekjur. Gjaldeyrisútflæði gæti því orðið töluvert í kjölfar gjalddagans, þótt erlendu aðilarnir hafi raunar 6 mánuði til gjaldeyriskaupa eftir að vaxtatekjurnar falla til. Þessi 6 mánaða gluggi hefur orðið til þess að ríkisbréfagjalddagar hafa hingað til ekki endurspeglast í miklum sveiflum á gengi krónu strax í kjölfarið, en stærð gjalddagans nú ásamt áhyggjum af breyttum reglum um krónueign útlendinga er að okkar mati til þess fallið að auka líkurnar á útflæði fljótlega í kjölfar gjalddagans,“ segir í Morgunkorninu og því bætt við að það gæti orðið að brattann að sækja fyrir krónuna vegna þessa næstu daga. Þó eigi deildin von á að krónan braggist að nýju þegar frá líður og árstíðabundið gjaldeyrisinnflæði nær sumarhámarki sínu.