Icarus Invest sem áður hét Saxbygg Invest ehf. og var dótturfélag í 100% eigu Saxbygg ehf. á stærsta gjaldþrot sem sést hefur í Lögbirtingablaðinu síðustu mánuðina. Hljóðar það upp á rúma 42 milljarða króna, eða 42.058.386.695 krónur. Búið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2009. Skiptum á búinu var lokið 23. febrúar 2010 og lauk með úthlutunargerð úr þrotabúinu. Samkvæmt henni greiddust 26.956.843 krónur eða 0,07% upp í kröfur. Engar forgangskröfur voru í búinu.

Gríðarlegt tap varð á félaginu á árinu 2008, eða rúmlega 31,4 milljarðar króna samkvæmt rekstarreikningi. Þá hrundu eignir félagsins úr 16,3 milljörðum í rúmar 32,4 milljónir króna. Tap af hlutabréfum og afleiðusamningum nam rúmum 13,8 milljörðum króna á árinu 2008 og gengistap var þá upp á rúma 16,7 milljarða króna. Í árslok 2008 stóðu skuldir félagsins í rúmum 37 milljörðum króna samkvæmt ársreikningi félagsins og eigið fé var þá neikvætt um 36.989 milljónir króna.