Verðið hefur verið lækkað á einu stærsta einbýlishúsi landsins. Húsið er innst í botnlangagötu við Sunnuflöt í Garðabæ. Það er rúmir 930 fermetrar að stærð með bílskúrnum meðtöldum. Það var byggt árið 2010 og var í fyrrahaust auglýst á 93 milljónir króna. Fasteignasalan Ás auglýsti það í blöðum nú um helgina á lækkuðu verði - 68,9 milljónir króna. Afslátturinn nemur 24,1 milljón króna. Fasteignamat þess er samkvæmt söluskrá 116,8 milljónir króna.

Húsið við Sunnuflötina er rúmir 870 fermetrar að flatarmáli en lóðin öll tæpir 1.600 fermetrar og er hún afgirt með steypuvirki.

DV sagði árið 2010 fyrri eigendur hússins hafa árið 2007 greitt sjötíu milljónir fyrir lóðina og teikningu arkitektastofunnar Gassa að höllinni.

Ellefu herbergja risahöll

Húsið er með ellefu herbergjum, fimm stofum, sex svefnherbergjum og fjórum stofum. Samkvæmt samþykktum teikningum að húsinu skiptist efri hæðin í anddyri, gestasalerni, forrými, eldhús, borðstofu, stofu með arni, sjónvarpsstofu, hjónaherbergi með baðherbergi, fataherbergi, baðherbergi, tvö herbergi, skrifstofu, þvottaherbergi og bílskúr.

Á neðri hæðinni er gert ráð fyrir herbergi, fataherbergi, baðherbergi, tómstundaherbergi, vínkjallara, forrými, lagnarými, fitnesssal, baðrými með sundlaug og heitum potti, búningsherbergi með salerni, sturtum, köldum potti og gufubaði. Gert er ráð fyrir lyftu á milli hæða.