„Þetta mun ekki duga fyrir það starfsfólk sem kemur til með að vinna þarna. Það er nokkuð ljóst. Þetta þýðir að það verður ennþá meira álag á nærumhverfið,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að lögð hafi verið fram breytingartillaga á deiliskipulagi á Laugavegi 120 þar sem áætlað var að 7.000 fermetra hótel yrði ásamt 1.000 fermetra bílakjallara. Samkvæmt breytingunni verður hætt við smíði bílakjallarans og aðeins gert ráð fyrir sautján bílastæðum á lóð hótelsins.

„Við teljum ekki að það sé þörf á að hafa bílastæðakjallara þarna, auk þess er mjög erfitt að koma fyrir bílastæðakjallara út af miklum landhalla. Þeir sem eru að reka hótelið telja ekki nauðsynlegt að hafa mikið af bílastæðum þarna og því töldum við í meirihlutanum ekki ástæðu til að þvinga þá til þess að byggja bílakjallara,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, um málið.